mánudagur, 6. apríl 2009

Stanslaus blástur í aldarfjórðung

-Birt í Bæjarlífi, mars 2009 -

Frá afmælisæfingunni í febrúar. Föngulegur hópur þó vanti örfáa meðlimi.
Róbert Darling stjórnandi er fremstur frá hægri
og við hlið hans Ása Berglind Hjálmarsdóttir, formaður lúðrasveitarinnar.
Ljósmynd: Davíð Þór Guðlaugsson.

Lúðrasveit Þorlákshafnar náði þeim merka áfanga að verða 25 ára 23. febrúar sl. Haldið var upp tímamótin með æfingu og síðan ljúffengum kvöldverði á Svarta sauðnum.

Sögu Lúðrasveitar Þorlákshafnar má sem sé rekja aftur til ársins 1984. Þá komu nokkrir þorlákshafnískir hljóðfæraleikarar sér saman um að stofna lúðrasveit fyrir tilstilli Lions klúbbsins. Það þætti kannski einhverjum öðrum galin hugmynd í ekki stærra bæjarfélagi en þá var og er í sjálfu sér enn, en þarna er „persónuleika“ lúðrasveitarinnar best lýst; kraftur, þor og áræðni.

Róbert Darling var fyrsti stjórnandinn og hefur hann stjórnað sveitinni nánast óslitið síðan. Að auki eru tveir meðlimir sem alltaf hafa staðið vaktina en það eru þeir Hermann Jónsson básúnuleikari og Gestur Áskelsson saxófónleikar. Þeir eiga einnig skilið hrós fyrir mikla vinna og úthald. Ófáir harðfullorðnir meðlimir hafa verið með frá barnsaldri.

Æft er hvern fimmtudag og aka þó nokkrir á æfingar nánast hvernig sem viðrar frá sveitarfélögunum í kring og Reykjavíkursvæðinu.

Viðfangsefni Lúðrasveitarinnar hafa verið fjölbreytt í gegnum árin og sífellt eykst metnaðurinn. Sveitin hefur ekki einungis fengist við að spila hefðbundna lúðrasveitatónlist sem flestir kannast við í kringum hin ýmsu hátíðahöld, heldur hafa þekktir poppslagarar sem og sígild stórverk fengið að njóta sín í auknum mæli. Má einkum upplifa þá spilamennsku á árlegum jóla- og vortónleikum sveitarinnar.


Fyrstu árin

Eins og elstu menn muna stóð lúðrasveitin fyrir eigin hátíðarhöldum um árabil. Hátíðin var kölluð Þorláksvaka og var gríðarlega vinsæl. Þá hafa reglulega verið haldin fjölsótt bingó. Svo hafa meðlimir farið í æfingarferðalög, bæði innanlands og utan auk þess að sækja fjölmörg Landsmót íslenskra lúðrasveita sem ávallt reynast hin besta skemmtun.

Í september sl. hélt lúðrasveitin Landsmót íslenskra lúðrasveita. Mótið var haldið hér í Þorlákshöfn að sjálfsögðu og tókst í alla staði mjög vel. Um 100 hljóðfæraleikarar mættu til leiks víðsvegar að af landinu úr 7 lúðrasveitum og var ekkert slegið af, spilað bæði dag og nótt!

Síðustu jólatónleikar voru mjög vel lukkaðir í samstarfi við Söngfélag Þorlákshafnar og Söngsveit Hveragerðis. Í vor verður svo ráðist í sérstaklega metnaðarfullt verkefni. Um er að ræða tónleika þar sem lúðrasveitin mun að mestu annast undirleik hjá ýmsum einleikurum úr Árnessýslu, bæði í léttari og þyngri verkum. Æfingar fyrir þetta verkefni eru langar og strangar, en hópurinn er samheldinn og stjórnandinn límið.

Félagar í Lúðrasveit Þorlákshafnar eru nú um 30. Mikil fjölgun hefur orðið á ný í sveitinni undanfarin ár og hefur tekist vel að fá gamla meðlimi til að dusta rykið af hljóðfærum sínum og spila með.

Það er ekki sjálfgefið að halda úti lúðrasveit og það gæðabandi sem þessu í jafn fámennu byggðarlagi og Þorlákshöfn en Róbert Darling hefur drifið starfið áfram af miklum krafti og á hann heiður skilinn fyrir það.

Þó nokkrir ungir og efnilegir hljófæraleikarar hér í Þorlákshöfn eru alveg að komast á aldur fyrir sveitina. Verður gaman að þeirri nýliðun. Þess vegna lifir lúðrasveitin vonandi í áratugi í viðbót. Til hamingju með afmælið!

Engin ummæli: