miðvikudagur, 1. október 2008

Takk fyrir frábært landsmót

Við viljum þakka öllum þeim hljóðfæraleikurum og stjórnendum sem sóttu okkur heim síðastliðna helgi kærlega fyrir komuna. Allt gekk þetta með eindæmum vel og var ekki annað að sjá en fólk skemmti sér konunglega. Við vonum auðvitað, og erum sannfærð um, að landsmótið í Þorlákshöfn verði eftirminnilegt og á allra vörum þegar fram líða stundir. Þeir sem ekki tóku þátt verða víst að lifa með því og bæta úr þegar kemur að næsta landsmóti.

Til að halda stemningunni gangandi væri gaman ef þátttakendur sendu okkur myndir af landsmótinu (ludrasveitin@gmail.com). Eins má senda vefslóðir á myndir sem þegar eru komnar á netið. Þannig gætum við búið til skemmtilegan myndabanka á þessari síðu.

þriðjudagur, 23. september 2008

Landsmót Lúðrasveita helgina 26-28. september

19. landsmót Sambands íslenskra lúðrasveita verður haldið í Þorlákshöfn dagana 27. og 28. september. Lúðrasveit Þorlákshafnar á veg og vanda að skipulagningu mótsins og eru þátttakendur í kringum 100.

Landsmótin hafa verið haldin á 3-4 ára fresti, nú síðast í Vestmannaeyjum árið 2004. Hingað til hefur sá háttur verið hafður á að lúðrasveitirnar spili hver í sínu lagi, en að þessu sinni var ákveðið að blanda öllum þátttakendum saman. Hópnum verður svo skipt upp í tvær stórar hljómsveitir þar sem hljóðfæraleikarar úr öllum lúðrasveitunum mætast. Þetta fyrirkomulag krefst þess ekki að þátttakendur séu virkir lúðrasveitameðlimir heldur geta allir áhugasamir komið og verið með, t.d. gamlir lúðrasveitafélagar. Einnig auðveldar þetta litlum hljómsveitum að taka þátt.

Landsmótinu lýkur með tónleikum sem haldnir verða í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn sunnudaginn 28. september kl. 13:30. Ekkert kostar inn á tónleikana sem eru opnir almenningi.