sunnudagur, 7. október 2012

Þar sem himin ber við haf


Þar sem himin ber við haf
Jónas Sigurðsson tónlistarmaður, í samvinnu við Lúðrasveit Þorlákshafnar, fagnar útgáfu nýrrar breiðskífu, Þar sem himin ber við haf. Af því tilefni er blásið til stórfenglegra útgáfutónleika dagana 19. og 20. október kl. 21:00 í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn. Um er að ræða nýtt efni og þematengda upplifun frá tónlistarmanninum Jónasi þar sem hafið spilar stórt hlutverk. Lagið „Þyrnigerðið“, sem hljómað hefur á öldum ljósvakans í sumar og haust, er meðal annars að finna á þessari breiðskífu sem verður flutt í heild sinni. Fram munu koma, ásamt Jónasi og lúðrasveitinni, eldriborgaratónlistarbandið Tónar og trix, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Ómar Guðjónsson á gítar, Kristinn Snær Agnarsson á trommur, Ingi Björn Ingason á bassa og fleiri.

Einstakur viðburður og upplifun fyrir öll skilningarvit.
Húsið opnar klukkustund fyrir tónleika.
Þetta eru sitjandi tónleikar en sætin ekki númeruð.

Miðasala er á midakaup.is
Miðaverð er 3.500 kr. 
Nettilboð á diski: 2.000 kr. Diskurinn afhentur við innganginn gegn framvísun miða.

mánudagur, 6. febrúar 2012

Þar sem himin ber við haf

Kæru aðdáendur, nú þegar nýliðnir eru hinir árlegu nýárstónleikar Lúðrasveitar Þorlákshafnar viljum við meðlimir sveitarinnar þakka fyrir frábæra aðsókn og undirtektir. Við erum full þakklætis fyrir alla þá sem hafa stutt okkur beint og óbeint á síðustu misserum. Þetta er okkur sannarlega hvatning til áframhaldandi góðra (tón) verka.

Sveitin hefur nú þegar hafið undirbúning og æfingar á næsta verkefni sem er án efa það stærsta sem hún hefur ráðist í frá upphafi. Fyrirhugað er að gefa út plötu með Jónasi Sigurðssyni og frumflytja það efni um sjómannadagshelgina. Verkefnið ber yfirskriftina þar sem himinn ber við haf og er óður til Þorlákshafnar og annarra íslenskra sjávarþorpa.

Verkið á að vera upplifun fyrir öll skynfæri, þar sem margir ólíkir listrænir þættir tvinnast saman. Þegar nær dregur munum við upplýsa ykkur nánar um verkefnið en þangað til getið þið haft bein áhrif á þróun þess með því að versla af okkur harðfisk á niðursettu verði. Hægt er að nálgast hann til hvaða meðlims sveitarinnar sem er.

Enn og aftur þökkum við stuðninginn, án ykkar værum við ekkert!

miðvikudagur, 4. janúar 2012

Nýárstónleikar 2012

Lúðrasveit Þorlákshafnar heldur nýárstónleika annað árið í röð laugardaginn 7. janúar kl. 17:00.