fimmtudagur, 2. júní 2011

Áheitaganga Lúðrasveitar Þorlákshafnar

Laugardaginn 21. maí, gekk Lúðrasveit Þorlákshafnar áheitagöngu frá Þorlákshöfn til Hveragerðis. Alla leiðina voru hljóðfærin á lofti og ýmis góð göngulög spiluð til að halda uppi hraðanum. Lagt var af stað frá Grunnskóla Þorlákshafnar um klukkan tíu og var ekkert stoppað fyrr en komið var að Læk í Ölfusi. Þar tóku heiðurshjónin Jón Hjartarson og Sigurhanna Gunnarsdóttir á móti sveitinni með glæsilegum veitingum í fallega garðinum sínum.

Veðurspáin hafði valdið meðlimum sveitarinnar töluverðum áhyggjum þar sem útlit var fyrir mikinn kulda og rok. Veðurguðirnir voru hins vegar með í för því það var glampandi sól alla leið, þó svo það hafi blásið hressilega á köflum. Lúðrasveitin endaði göngu sína í sundlauginni í Laugaskarði þar sem Jóhanna Hjartardóttir tók á móti göngugörpunum.

Á sundlaugarbakkanum lék Lúðrasveitin nokkur lög og fór svo í pottinn þar sem heita vatnið lék við lúna fætur. Eftir sundið var borðað á Hoflandssetrinu þrátt fyrir mikið át allan daginn en í miðju Ölfusinu kom Víking pizza færandi hendi með pizzur handa öllum og Rán okkar bakaði kleinur ofan í allan mannskapinn. Nóg var af vatni frá Icelandic Waterholdings sem og orkudrykkjum frá Vífilfelli.


Gangan gekk eins og í sögu og voru gengnir um 23 kílómetrar á 4,5 klukkutímum. Þátttakendur í göngunni voru rúmlega 30 og skemmtu göngugarpar sér konunglega við spilamennskuna. Þórður Njálsson fylgdi sveitinni á rútu frá Guðmundi Tyrfingssyni og fá þeir sérstakar þakkir fyrir framlag sitt. Að lokum vilja meðlimir sveitarinnar þakka öllum þeim sem studdu við bakið á lúðrasveitinni með einum eða öðrum hætti. Bæjarbúar, vinir, fyrirtæki, ættingjar og allir hinir, takk kærlega fyrir stuðninginn.

Kær kveðja frá Lúðrasveit Þorlákshafnar :)

Engin ummæli: