föstudagur, 20. maí 2011

Það eru engir lúðar í lúðrasveit

Úr Dagskránni, fimmtudaginn 19. maí 2011

Á fimmtudagskvöldum koma saman á fimmta tug manna sem vinna dags daglega við hin ýmsu störf. Þar má finna rafvirkja, hjúkrunarfræðing, sjómann, hárgreiðslukonu, viðskiptafræðinga, háskólanema, kennara og svo mætti lengi telja. Eitt eiga þau öll sameiginlegt, það er að einhvern tímann hafa þau lært á hljóðfæri og nota þá þekkingu til þess að spila með Lúðrasveit Þorlákshafnar. Þar er reyndar líka að finna mikið menntað tónlistarfólk sem spilar orðið víðar en hefur aldrei sagt skilið við Lúðrasveitina, þetta er bara svo frábær hópur!

Lúðrasveitin er orðin 27 ára en hún var stofnuð árið 1984 og hefur Robert A. Darling stjórnað henni nánast óslitið frá upphafi. Undanfarið hefur verið mikill uppgangur í sveitinni og einkennist hann helst af metnaðarfullum verkefnum og nýjum meðlimum sem bætast í hópinn. Sem dæmi um verkefni á þessu ári má nefna nýárstónleika 2. janúar sl. sem 240 manns komu og sáu og samstarfsverkefni með Lúðrasveit Reykjavíkur þar sem sveitirnar leiddu saman lúðra sína og sameinuðust í 80 manna stórhljómsveit sem hélt tvenna tónleika í mars, aðra í Langholtskirkju í Reykjavík og hina í Íþróttahúsi Þorlákshafnar.

Lúðrasveit Þorlákshafnar prúðbúin á Nýarstónleikum 2. janúar 2011

Framundan eru spennandi tímar hjá sveitinni því enn ætlum við að fara ótroðnar slóðir og reyna að toppa það sem við höfum áður gert. Næsta vetur ætlum við í samstarf með Jónasi Sigurðssyni sem átti meðal annars lag ársins „Hamingjan er hér“. Um er að ræða nýtt efni sem flutt verður í tónleikaröð og gefið út á plötu. Það er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að við fengum styrk frá Menningarráði Suðurlands og Tónskáldasjóði Rásar tvö fyrir þetta verkefni.

Laugardaginn 21. maí næstkomandi ætlar Lúðrasveit Þorlákshafnar að spila gangandi (marsera) frá Þorlákshöfn til Hveragerðis og er hún að safna áheitum fyrir gönguna í fjáröflunarskyni. Ef þig langar til þess að heita á sveitina getur þú haft samband við Helgu í síma 862-0940 eða sent tölvupóst á katrinoskh@gmail.com. Einnig er tilvalið að fá sér bíltúr um Ölfusið á laugardaginn og hlusta á fagra tóna Lúðrasveitarinnar.

Þess má geta að lagt verður af stað kl. 10 frá Grunnskóla Þorlákshafnar og vill Lúðrasveitin þakka sérstaklega Guðmundi Tyrfingssyni og Þórði Njálssyni fyrir sitt framlag ásamt öllum þeim sem þegar hafa heitið á okkur.

Að lokum viljum við hvetja alla þá sem einhvern tímann hafa spilað á blásturshljóðfæri að dusta rykið af lúðrinum og slást í för með næstu lúðrasveit, hvort sem það er Lúðrasveit Þorlákshafnar eða einhver önnur, þetta er bara svo mikið stuð og frábær næring fyrir sálina!


F. h. Lúðrasveitar Þorlákshafnar,

Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Engin ummæli: